Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Slökkvistöðin Elliðaárdalsmegin við Stekkjarbakka

Deiliskipulagstillaga um nýja slökkvistöð við Stekkjarbakka er komin í auglýsingu sbr. frétt í Mbl. í dag, 28. september 2008.

Áhugasamir hafa frest fram til loka októbermánaðar til að senda inn athugsemdir sínar.

Tillagan gerir ráð fyrir að ný lóð verði afmörkuð fyrir hverfisstöð slökkviliðsins og breytt lega verði á vegi fyrir umsjónarmann við Skálará. Bílastæði og önnur þjónusta mun færast norður fyrir byggingarreit slökkvistöðvarinnar.

Nokkrar óánægju hefur gætt með staðarval stöðvarinnar og finnst sumum að gengið verði um og of á útivistarsvæði í Elliðaárdalnum.

Slökkviliðsstjóri segir hins vegar að staðarvalið sé vel ígrundað enda liggi viðamikil greining á útkallstíma SHS  á öllu höfuðborgarsvæðinu þar að baki.  Staðsetningin sé valin með tilliti til hagsmuna almennings. Rísi stöðin þarna sé hún vel staðsett við stofnbrautarkerfið.


Breiðholtsdagar í fullum blóma

Breiðholtshátíðin er nú í fullum blóma og hafa dagskrárliðir gengið vel að því sem best er vitað.
Setningin í Árskógum var stórkostleg. Forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson opnaði hátíðina og á sama tíma málverkasýningu heyrnalausra listamanna. Frú Dorrit var glæsileg að vanda og gaf sér góðan tíma til að heilsa upp á alla nærstadda.

Í gær var skrifstofa Alþjóðahúss í Breiðholti opnuð með viðhöfn og glæsilegri móttöku í Gerðubergi.

Áfram verður haldið í dag, miðvikudag en það sem ber hvað hæst er kökubasar og kynning á Kvenfélaginu Fjallkonunum og síðan eftir hádegi kynning á Námsflokkunum.
Bókmenntaganga verður frá Borgarbókasafninu kl. 17:00 og þaðan förum við beint í kaffi í Miðbergið. Nánara um dagskrárliði er að finna í Breiðholtsblaðinu sem nú hefur verið borið í hús.
Góða skemmtun.

Breiðhyltingar bregða á leik 15-20 september

Breiðholtshátíðin sem er menningar- og fjölskylduhátíð Breiðholts hefst mánudaginn 15. september með metnaðarfullri dagskrá  víðs vegar í Breiðholtinu. Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands heiðrar Breiðhyltinga með nærveru sinni fyrsta dag hátíðarinnar.
Forsetinn setur hátíðina með formlegum hætti á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ, Félagsmiðstöðinni Árskógum 4 kl. 14:00. Við setninguna verður opnuð málverkasýning heyrnarlausra myndlistarmanna. Sögurútan fer um hverfið kl. 17:00.

Hátíðin nær hápunkti sínum á hátíðarsamkomu sem haldin verður í Íþróttahúsinu Austurbergi á sjálfan Breiðholtsdaginn 20. september þar sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri mun ávarpa samkomuna og afhenda heiðursviðurkenningarskjöl.

Breiðholtið hefur á að skipa gríðarlega margbrotnu mannlífi. Margbreytileikinn sést m.a. á því hversu margar fjölskyldur af ólíkum uppruna búa í Breiðholti.  Kjarni hátíðarinnar er að íbúar hverfisins fái tækifæri til að kynnast nágrönnum sínum og að fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök í Breiðholti eigi þess kost að kynna íbúum starfssemi sína. Boðið verður upp á fjölbreytta viðburði fyrir öll aldurskeið. Lögð er áhersla á að sem flestir taki þátt og að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.

Breiðhyltingar bjóða Alþjóðahús velkomið í hverfið sem opnar með viðhöfn þriðjudaginn 16. september kl. 17. Með tilkomu Alþjóðahúss í Breiðholtið skapast tækifæri til að auka enn frekar fjölmenningarleg samskipti í Breiðholti. Fyrr um daginn verður opnuð sýning á myndum ljósmyndasamkeppni sem haldin var í Breiðholti í sumar. Myndefnið var mannlíf og umhverfi í Breiðholti.

Leikskólabörn munu heimsækja Árbæjarsafn og eldri borgarar í Breiðholti fara í vinabæjarheimsókn til eldri borgara í Reykjanesbæ. Í göngugötunni í Mjódd verður haldin kynning á Námsflokkunum og einnig verður kökubasar og kynning á Kvenfélaginu Fjallkonunum í Hólagarði.

Í Breiðholti er fjölskyldan í fyrirrúmi. Málþing um málefni fjölskyldunnar verður haldið í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi á fimmtudeginum eftir hádegi. Fulltrúar frá öllum helstu stofnunum sem koma að málefnum fjölskyldunnar munu halda fyrirlestra.

Eldri borgarar og grunnskólabörn eru með ýmis dans,- og söngatriði á takteinum að ónefndu pottakaffi í Breiðholtslaug alla morgna vikunnar. Foreldrar í Breiðholti munu treysta böndin á foreldramorgni í Breiðholtskirkju á föstudeginum og ekki má gleyma að minna á prjónakaffið með góðum gesti hjá Félagsstarfi Gerðubergs einnig á föstudeginum.   

Skipulagðar göngur eru fyrirhugaðar; Seljaganga með Guðrúnu Jónsdóttur, arkitekt og bókmenntaganga Borgarbókasafnsins. Kaffihúsið í Miðbergi býður göngugörpum í kaffi að lokinni göngu.

Kórar, söng,- og danshópar láta til sín taka í hátíðarvikunni. Vinabandið lætur sig ekki vanta og mun m.a. spila og syngja í Fríðuhúsi.

Á hátíðarsamkomunni munu unglingar úr Breiðholtsskóla sýna atriði úr Grease og ÍR danshópurinn taka sporið.Fjölmargar samveru,- og kyrrðarstundir sem og guðþjónustur og fyrirbænastundir verða haldnar í kirkjum Breiðholts þessa viku. Samkomuhald verður t.d. í Seljaskóla í umsjón barnastarfs Miðbergs. Messa verður í Maríukirkjunni við Raufarsel alla virka daga og ensk messa verður haldin í Maríukirkjunni á laugardeginum.

Íþróttafélag Reykjavíkur (ÍR) mun ekki láta sitt eftir liggja. Á laugardeginum munu deildir ÍR kynna starfsemi sína. Hoppukastali verður á staðnum, boðið verður til grillveislu og unglingaráð knattspyrnudeildarinnar blæs til uppskerufagnaðar svo fátt eitt sé nefnt.

Hér er einungis birt brot af þeirri viðamiklu dagskrá sem sett hefur verið saman í tilefni Breiðholtsdaga 2008. Breiðhyltingar eru hvattir til að fjölmenna á sem flesta viðburði og samverustundir sem haldnar eru víðs vegar í Breiðholti þessa viku.  Samhugur og samvera íbúanna er merki um hversu stoltir Breiðhyltingar eru af hverfinu sínu og hversu umhugað þeim er að gæða í það enn fjölbreyttara lífi og hlúa að ímynd þess og íbúum.

Bregðum á leik í Breiðholti vikuna 15-20 september 2008.

 

 


Höfundur

Íbúasamtökin Betra Breiðholt
Íbúasamtökin Betra Breiðholt

Síða þessi er ætluð til að vera samskiptagrundvöllur fyrir alla Breiðholtsbúa.

Stjórn Íbúasamtaka Betra Breiðholts skipa:
Helgi Kristófersson, formaður
Kolbrún Baldursdóttir, varaformaður
Anna Sif Jónsdóttir, ritari
Falasteen Abu Libden, meðstjórnandi
Magnús Gunnarsson, gjaldkeri
Rut Káradóttir, meðstjórnandi
Þorkell Ragnarsson, meðstjórnandi

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband