Leita í fréttum mbl.is

LÖG ÍBB

Lög Íbúasamtaka Breiðholts

1. grein. Heiti félagsins og varnarþing
Félagið heitir Íbúasamtök Breiðholts. Varnarþing félagsins er í Reykjavík.

2. grein. Félagssvæðið
Félagið er félag íbúa í Bakka- og Stekkjahverfi, Fella- og Hólahverfi og Skóga- og Seljahverfi. Allir íbúar, sem eiga lögheimili á svæðinu, hafa kjörgengi og atkvæðisrétt á fundum félagsins.

3. grein. Markmið
Félagið er almennt félag. Tilgangur þess og markmið er eftirfarandi:
- Að stuðla að samhug og samkennd íbúa hverfisins
- Að vera samstarfsvettvangur íbúa og félagasamtaka á svæðinu.
- Að vinna að framfara- og hagsmunamálum í hverfinu.
- Að starfa með Hverfisráði Breiðholts og öðrum opinberum aðilum sem fara með málefni hverfisins og íbúa þess. Í þessu skyni skal samin starfsáætlun fyrir hvert ár þar sem lögð er megináhersla á þrjá tiltekna málaflokka, svo sem umferðarmál, umhverfismál, skólalóðir, fjölgun bílastæða og varnir gegn innbrotum, samræmingu skóladags og tómstundastarfs o.fl. Sérstök áhersla verður lögð á að búa börnum og unglinum í hverfinu heilbrigð og þroskandi vaxtarskilyrði.
%u2022 Að stuðla að samstarfi við íbúasamtök annarra hverfa.

4. grein. Stjórn félagsins
Stjórn félagsins skal skipuð sjö félagsmönnum: formanni, varaformanni, ritara, vararitara, gjaldkera og tveimur meðstjórnendum, auk tveggja varamanna.
Formaður félagsins er fulltrúi þess og félagsstjórnar út á við. Hann kveður til stjórnarfunda einu sinni í mánuði. Hann semur dagskrá fyrir fundina og stjórnar þeim. Formaður hefur umsjón með starfsemi félagsins og eftirlit með því að fylgt sé lögum, reglum og fundarsamþykktum.
Stjórn félagsins skal boða til funda í samræmi við samþykktir og lög félagsins. Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn félagsins og allra mála félagsins milli félagsfunda.
Tveir sérstaklega kjörnir skoðunarmenn skulu yfirfara reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár, sem er almanaksárið. Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi ár hvert, ennfremur tveir skoðunarmenn reikninga og einn til vara. Hljóti frambjóðendur jafnan fjölda atkvæða skal hlutkesti ráða því hver nær kjöri. Æskilegt er að fulltrúar úr öllum þrem hverfum Breiðholts sitji í stjórn sem aðalmenn. Kosning er til tveggja ára. Þó skulu tveir stjórnarmenn kosnir til eins árs á stofnfundi. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórnarfundur er löglegur þegar meirihluti stjórnarmanna er viðstaddur. Formaður situr áfram í stjórn í eitt ár eftir að hann lætur af störfum sem formaður. Stjórnarmaður getur því aðeins greitt atkvæði í umboði annars að allir aðrir aðalmenn hafi samþykkt það. Varamönnum er heimilt að sitja alla stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétti.

5. grein. Fundarhöld
Félagsfund skal boða með minnst þriggja daga fyrirvara.
Heimilt er að boða til fundar með skemmri fyrirvara ef nauðsyn krefur. Félagsfundur er lögmætur og ályktunarfær ef löglega hefur verið til hans boðað með auglýsingu í fjölmiðlum og/eða bréflega. Dagskrá fundar skal getið í fundarboði.
Ákvarðanir lögmætra félagsfunda um málefni félagsins eru bindandi fyrir stjórn félagsins. Þar ræður afl atkvæða úrslitum með þeim takmörkunum sem lög og reglur félagsins kveða á um. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum atkvæðagreiðslu.

Reglulegir fundir félagsins eru:
Aðalfundur
Aðalfund skal halda fyrir lok september ár hvert.
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Allir félagsmenn eiga rétt á að sitja aðalfund. Aðalfund skal boða með auglýsingu í fjölmiðlum og/eða með dreifibréfi með minnst sjö daga fyrirvara.
Þá skulu m.a. tekin fyrir í þessari röð eftirtalin mál:
1. Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári.
2. Endurskoðaðir reikningar félagsins.
3. Gerð grein fyrir störfum nefnda.
4. Kosning stjórnar og varamanna. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.
5. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.
6. Lagabreytingar ef þeirra hefur verið getið í fundarboði.
7. Kosning nefnda.
8. Starfsáætlun fram að vorfundi.
9. Önnur mál.
Félagsfundir
Félagsfundi skal halda þegar a.m.k. tveir stjórnarmenn telja ástæða til.
Stjórn félagsins er skylt að boða til félagsfundar ef minnst 10 félagsmenn óska eftir því skriflega og fram kemur dagskrárefni. Heimilt er stjórn félagsins að boða til sérstakra funda með félagsmönnum eða svæðum þar sem fjallað er sérstaklega um þeirra mál eða afmörkuð félagsleg málefni.
Samráðsfundir
Haldinn skal a.m.k. einn samráðsfundur á ári með fulltrúum félaga sem starfa í hverfinu.
6. grein. Starfshópar félagsins
Stjórn félagsins og félagsfundir geta skipað starfshópa og falið þeim ákveðin verkefni eftir nánari fyrirmælum hverju sinni.
7. grein. Fjármál
Félagið er ekki rekið í fjárhagslegum tilgangi. Tekjur þess eru gjafir, framlög og styrkir. Kostnað af rekstri félagsins og starfsemi þess skal greiða úr sjóðum félagsins. Félaginu er heimilt að leita eftir fjárframlögum úr borgarsjóði til afmarkaðraverkefna. Stjórn félagsins ber ábyrgð á eignum félagsins og sér um að ávaxta sjóði þess á sem tryggastan hátt. Gjaldkeri félagsins hefur á hendi öll fjármál félagsins nema annað sé ákveðið í lögum og reglugerðum.
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Félagslegir skoðunarmenn reikninga skulu yfirfara reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár og leggja fram athugasemdir sínar, ef nokkrar eru, fyrir aðalfund. Hlutverk þeirra er m.a. að hafa eftirlit með því að fjármunum félagsins sé í öllu ráðstafað í samræmi við félagsvenjur og gildandi heimildir. Að lokinni skoðun skulu þeir árita reikningana.
8. grein. Lagabreytingar
Lögum þessum má breyta á aðalfundi enda hafi breytinganna verið getið í fundarboði.
9. grein. Félagsslit
Félaginu verður ekki slitið nema á aðalfundi og að 2/3 hluti fundarmanna samþykki það. Auðir og ógildir seðlar teljast þá ekki með.
Verði samþykkt að leggja félagið niður skal varðveita eignir þess í banka þar til annað félag er stofnað með sama tilgangi á félagssvæðinu.
Ef ekki er boðaður aðalfundur innan tveggja ára frá síðasta aðalfundi leggjast samtökin sjálfkrafa niður.

Þannig samþykkt á stofnfundi í menningamiðstöðinni Gerðubergi 28. september 2006
BAF 03.11.06


Höfundur

Íbúasamtökin Betra Breiðholt
Íbúasamtökin Betra Breiðholt

Síða þessi er ætluð til að vera samskiptagrundvöllur fyrir alla Breiðholtsbúa.

Stjórn Íbúasamtaka Betra Breiðholts skipa:
Helgi Kristófersson, formaður
Kolbrún Baldursdóttir, varaformaður
Anna Sif Jónsdóttir, ritari
Falasteen Abu Libden, meðstjórnandi
Magnús Gunnarsson, gjaldkeri
Rut Káradóttir, meðstjórnandi
Þorkell Ragnarsson, meðstjórnandi

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband