Leita í fréttum mbl.is

Enga "Gullnámu,, í Breiðholtið

Enga "Gullnámu,, í Breiðholtið!
HÁSKÓLI ÍSLANDS er sú stofnun sem maður lítur upp til og metur mikils. Þar er mikill metnaður í starfi og námi. Það er aðdáunarvert hve margir nemendur hafa skilað sér frá þessari menntastofnun og reynst þjófélaginu góðir og nýtir þegnar. Miklar kröfur eru gerðar til kennaranna og nemendurnir gera jafnframt miklar kröfur til þeirra.
En það eru margar hliðar á Háskóla Íslands og ekki allar jafnjákvæðar. Skólinn hefur tekið upp á því að ýta undir spilafíkn sem verður að teljast mjög neikvætt. Ekki er tekið próf í þessu "fagi" en þessi fíkn reynist þjóðfélaginu dýr. Prófin í skólanum reyna mjög mikið andlega á nemendur. Spilafíknin reynir peningalega og þjóðfélagslega á alla sem að þessu koma, þ.e.a.s. fórnarlömbin sem spila og ættingja þeirra. Aukið aðgengi að spilakössum fjölgar spilafíklum og er þá ekki spurt um eitt eða neitt við inngöngu.
Nú er fyrirhugað að opna nýjan stað þar sem einstaklingar geta fengið útrás fyrir spilafíknina og fleiri geta orðið fórnarlömb hennar. Til stendur að opna Gullnámu í Mjóddinni í Breiðholti við hliðina á stórlega bættri heilsugæslustöð. Tvisvar hefur verið reynt að opna krá við Arnarbakkann í Breiðholti, 1995 og 1999. Í bæði skiptin komu íbúar í veg fyrir þá framkvæmd.
Nú hefur verið ákveðið að opna Gullnámu í Mjóddinni og var þess gætt vandlega að íbúar vissu ekki af þeirri framkvæmd. Leyfin voru veitt með gamalli úreltri reglugerð og núna nýlega barst þetta til eyrna íbúa og stuttu áður fréttu þeir sem stunda rekstur í Mjóddinni af málinu. Að frumkvæði nokkurra rekstraraðila í Mjóddinni var safnað undirskriftum til að mótmæla opnun þessa staðar og aðeins á nokkrum dögum söfnuðust rúmlega 1700 undirskriftir. Ekki var farið með listann um hverfið enda segir þetta allt sem segja þarf. Við íbúar í Breiðholtinu höfum ekki áhuga á að fá slíka ómenningu í hverfið okkar.
Við íbúar í Breiðholti stöndum saman þegar svona kemur upp eins og við gerðum 1995 og 1999. Að Háskóli Íslands ætli að opna slíka staði hér og þar um borgina er óhugnanlegt og búið að kosta þjóðfélagið mikið fé fyrir utan mannslífin sem þessi fíkn hefur tekið og önnur sem hún hefur eyðilagt. Sú þróun er óhugnanleg að fá slíkan stað hingað í Breiðholtið. Þetta er samkvæt gamalli reglugerð þar sem Happdrætti Háskólans hefur leyfi fyrir ca. 700 spilakössum en þarf ekki leyfi fyrir stðsetningu staðarins og getur því skotið sér niður hver sem er.
Er ástandið í okkar litla landi þannig að við getum ekki menntað fólk nema með því að hagnast á ógæfu annarra? Því spyrjum við: Eru ekki til aðrar heilbrigðari leiðir til að styrkja þessa annars góðu stofnun, Háskóla Íslands?
Við lýsum eftir þeim sem eru ábyrgir fyrir þessari leyfisveitingu þar sem við höfum áhuga á að fá að ræða við þá einstaklinga og gera þeim grein fyrir þeirri stóru ábyrgð sem þeir standa frammi fyrir á næstunni. Ábyrgðin er mikil og sennilega óskar enginn sér að taka það á sig að leyfa opnun staðarins. Við viljum að þeir hinir sömu gefi sig fram og tali sínu máli.
Jafnframt er það ósk Íbúasamtakanna Betra Breiðholts að fá rektor Háskóla Íslands til að gefa sér tíma til að taka við mótmælum á opnun þessa staðar og við hlið hans verði sá sem heimilaði opnun staðarins. Þið megið nefna stað og stund. Við viljum gjarnan fá að hitta þessa einstaklinga og fá skýringar á þessu framtaki sem er sorglegt í sögu Reykjavíkur.
Við viljum fá að vita tilgang þess að opna slíkan stað og skýringar á því af hverju við þurfum að vera að standa í því að mótmæla. Hvers vegna er ekki spurt svo ekki þurfi að mótmæla? Hve langt þarf að ganga að eignum fólks og hve margir þurfa að missa eigur sínar og jafnvel meira en aðeins veraldlegar eignir til þess að það skiljist að þetta hentar ekki hvar sem er? Rétt er að vekja athygli á því að sjálfsmorðstíðni spilafíkla er með því hæsta sem þekkist meðal fíknarsjúklinga. Við höfum sannfrétt að á öðrum stöðum, þar sem slík starfsemi er rekin, hefur það valdið ýmsum vandræðum. Það er a.m.k. staðreynd að hingað í Breiðholtið viljum við ekki fá slíkan stað.
Íbúasamtökin Betra Breiðholt
Helgi Kristófersson, formaður.
BAF 07.11.06

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Íbúasamtökin Betra Breiðholt
Íbúasamtökin Betra Breiðholt

Síða þessi er ætluð til að vera samskiptagrundvöllur fyrir alla Breiðholtsbúa.

Stjórn Íbúasamtaka Betra Breiðholts skipa:
Helgi Kristófersson, formaður
Kolbrún Baldursdóttir, varaformaður
Anna Sif Jónsdóttir, ritari
Falasteen Abu Libden, meðstjórnandi
Magnús Gunnarsson, gjaldkeri
Rut Káradóttir, meðstjórnandi
Þorkell Ragnarsson, meðstjórnandi

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband